Á Fellsmerkurdeginum í ágúst 2022 sagði Hallur Björgvinsson frá merkilegum atburðum um mann sem ákvað að leggjast út og vitja útilegumanna. Sagan er til á vefnum Heimaslóð, Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum og er hér að neðan í lítið breyttri mynd sem hún birtist þar sem munnmælasaga úr Mýrdal.
Sagan er líklega upphaflega skrifuð af Eyjólfi Guðmundssyni á Hvoli í Mýrdal og höfð eftir eftir Þorsteini bónda á Vatnsskarðshólum árið 1895.
Um aldamótin 1800 bjó í Pétursey bóndi sá, er Einar hét Ormsson, afarmenni af kröftum, einrænn og undarlegur í háttum. Ekki var hann illmenni né þorpari, en harðfengur og óvæginn. Stóð mörgum ótti af honum og vöruðust að styggja hann.
Bústýru hélt hann, er Sigríður hét. Segja sumir, að þau væri gift og spillti hún heldur Einari. Voru þau mjög út af fyrir sig og mannfælin. Einari leiddist að búa í þéttbýlinu í Pétursey og fékk því jarðaskipti við bóndann í Holti og flutti þangað. Holt er afskekkt og var þá einbýli. Holt var áður fyrr stórbýli og kirkjustaður og er í gömlum ritum nefnt Keldudalsholt. Sjást þar merki til grafreits og kirkjustæðis*.
*Nú er búið að slétta út kirkjustæðið (1927).
En svo hefir Holt af sér gengið á síðari árum af völdum Hafursár og Holtsár, að nú er þar ekki búsældarlegt móts við það, sem áður var. Næsti bær við Holt er Fell. Þar var prestssetur, og deildu Fellsprestar jafnan um landamörk við Holtsbændur. Ekki gaf Einar sig að þeirri deilu, og óx nú einræni hans því meir, sem hann bjó lengur. Engan vandalausan mann höfðu þau á heimili og engum manni buðu þau inn í baðstofu, þó að garði bæri. Börn áttu þau nokkur, og tók Einar móti þeim, þurfti aldrei yfirsetukonu við, og aldrei lá Sigríður nema 2—3 daga eftir barnsburð. Eldur var ekki kveiktur nema einu sinni í viku, og eldaði Sigríður þá og bjó til mat, sem entist til vikunnar. Um sláttinn gengu þau bæði að heyvinnu. Börnin fluttu þau með sér á engjar og fleygði Sigríður þeim yngstu í heysátu eða múga og skeytti lítið um, þótt þau skældi. Var sagt, að Einar hyggði þá betur að þeim og hagræddi. Aldrei fóru þau til kirkju, nema þegar börnin voru skírð. Þá riðu þau til Sólheimakirkju og reiddi Einar krógann í bjarndýrsfeldi. Ýmsar getgátur voru um það, hvernig Einar hefði eignazt feldinn. En engum sagði hann neitt umþað. Þótti líklegast, að á yngri árum hefði hann unnið bjarndýr, því að hann var vanur afréttagöngum á Síðu og Fljótshverfi, en átti heima í Meðallandi fram til þess að hann flutti í Mýrdalinn**.
** Einar var sonur Orms Jónssonar á Lyngum í Meðallandi.
Eitthvert sumar, snemma sláttar, tóku vinnumenn á Felli eftir því, að engin hreyfing sást í Holti. Einar kom ekki til heyverka, og búsmali var ekki hreyfður. Gekk svo í tvo daga. Gátu þeir um þetta við prestinn, en hann bað smalamann sinn að koma við í Holti og spyrja kinda, en taka vel eftir, hvers hann yrði var. Smalamaður fann bæinn lokaðan í Holti og varð einskis manns var. Lætur prestur þá kalla til nokkra menn og fer sjálfur með þeim að Holti. Koma þeir að bænum lokuðum og kúm ónytjuðum. Þeir brjóta upp bæinn og finna þar í baðstofu þrju börn þeirra Holtshjóna. Lá yngsta barnið í vöggu, og var hellusteinn bundinn yfir vögguna, svo að það kæmist ekki upp úr henni. Hin börnin voru úrvinda af hræðslu. Börnin voru þegar flutt til næstu bæja og búsmali rekinn að Felli. En um hjónin — Einar og Sigríði — fréttist ekki allt það sumar og fram á næsta vetur. Allir vissu, að þau voru lögzt út, og þótti óvænlegt að eiga Einar í óbyggðum, slíkan heljarkarl. Þegar þetta gjörðist, bjó Sveinn Pálsson læknir í Suður-Vík***.
*** Hann bjó þar 1814—1840.
Hann var gestrisinn maður og greiðasamur. Treystu menn ráðum hans, bæði um lækningar og önnur vandamál.
Veturinn eftir að þau Einar hurfu frá Holti gjörði ótíð og bjargleysur með veturnóttum og hélzt fram til jóla. Þá var það í S.-Vík rétt fyrir jólin, að hurð var knúð allharkalega. Var þá nær vökulokum. Vinnumenn gengu til dyra og virðist þeim, að úti bíði karlmaður og kona, er þeir bera ekki kennsl á. Gefur komumaður sig fram, en konan stóð hjá hesti úti á hlaðinu. Bjóða vinnumenn honum inn að ganga, en eigi þekktist komumaður það og gjörir boð fyrir Svein að finna sig. Vildu vinnumenn vita hver maðurinn væri, en hann kvað á sama standa um nafn sitt, hann þyrfti læknis við. Fluttu vinnumenn þessi orð til Sveins. Brá hann við þegar og gekk út til komumanna. Sveinn dvaldi úti hjá gestunum langa stund og ræddu þeir eitthvað hljóðlega. Því næst vísar hann þeim sjálfur til herbergja, en býður piltum að hirða hestinn. Voru nú þarna komin Einar Ormsson og kona hans úr útilegunni. Beiddi Einar Svein gistingar og ráða, og svo að lækna sár eitt mikið, er hann hafði fengið milli herða. Sveinn tók öllum þessum málum vel, en vildi fá að launum sanna sögu um ferðalag þeirra hjóna. Eigi vildi Einar ganga að því. Kvað hann engan um það varða, og eigi vildi hann heldur segja, hvernig hann hefði fengið sárið milli herðanna. Kom þá loks svo þeirra ráði, að Sveinn tekur Einar til græðslu. Dvöldu þau bæði, Einar og Sigríður, í Suður-Vík rúman hálfsmánaðar tíma, og vildi sárið illa gróa. Það þóttust menn vita, að Einar hefði að lokum sagt Sveini Pálssyni allt um ferðir sínar, en engum sagði hann það öðrum og ekki lét Sveinn neitt upp um það. En fullyrt var, að sár Einars væri eftir öxi, og alldjúpt höggið, en föt hans mjög blóði storkin og myndi hann nauðuglega hafa sloppið frá öðrum útilegumönnum.
Þegar Einar fór frá Suður-Vík, gaf hann Sveini Pálssyni hestinn, sem hann kom með. Hestur sá var jarpskjóttur að lit, allra hesta sterkastur og vænn á allan vöxt. Vildi Sveinn í fyrstu eigi þiggja hann. En Einar sagði, að óhætt væri að þiggja af sér hann Skjóna. Hann væri sér að öllu frjáls og myndi bera Svein engu síður en reiðhestar hans. Tók Sveinn þá við Skjóna og nefndi Útilegu-Skjóna. Bar hann síðan Svein hesta bezt og bjargaði tvívegis lífi hans í ófærum vötnum, að því er sagt er. En að launum lagði Sveinn Pálsson jafnan Einari lið, svo að enginn málarekstur var honum gjör út af þessu tiltæki hans og útilegu. Þótti þó ærið margt áfátt fyrir honum. Og enginn vissi, hvaðan Skjóni var honum kominn, því að ekki hafði sá hestur verið til í Holti, áður en þau hjón lögðust út þaðan. En eigi var um hann spurt neins staðar frá. Var því almennt trúað, að Einar hefði fengið Skjóna hjá útilegumönnum.
Eigi þótti ráðlegt, að láta Einar fara aftur að Holti. Var honum og Sigríði hans útveguð húsmennska í Pétursey. Sagði Einar þá, að hann ætti von á vísbendingu frá útilegumönnum, ef hann mætti koma til þeirra. Lifði hann í þeirri von. En eigi vildi hann segja, hvaðan slík bending væri væntanleg. En leitarmenn úr Álftaveri höfðu fundið haust hið næsta bréfmiða í Einhyrningshelli, er á var ritað: „Einar Ormsson má koma“. Hellir þessi kvað vera á Vermannaafrétti. Þegar þetta fréttist vestur í Mýrdal, var því haldið leyndu, og komust þessi orð aldrei til Einars.
Einar dvaldi í Pétursey tveggja eða þriggja ára tíma, en ekki voru börnin látin til hans aftur. Þegar hann var úrkula vonar um að fá vísbendingu frá útilegumönnum, gjörði hann nýja tilraun til þess að leggjast út. Rétt fyrir slátt hurfu þau hjón frá Pétursey, og spurðist ekki til þeirra allt sumarið. Leið svo fram yfir jól næsta vetur, og var þeirra ekki leitað. En hríðardag einn komu þau að Felli. Tók presturinn við þeim og þóttist þau úr helju heimt hafa. Voru þau þá mjög svöng og horuð og lá Sigríður veik nokkrar vikur þar á Felli, en náði þó aftur heilsu sinni. Sögðu þau svo frá ferð sinni, að þau höfðu bústað sinn í Stórhöfða, sem er afréttarland Péturseyjarbænda, og héldu til í helli þeim, sem síðan er nefndur Einarsskemma. En þar áttu þau vonda daga, lifðu mest á hvannarótum og grösum og nokkrum sauðkindum, sem þau áttu sjálf. Að síðustu þraut þau öll matvæli, en vildu eigi stela fé sér til bjargar. Var þá einn vegur að leita aftur til manna. Var þeim nú komið í vist og þóttu skapbetri en áður.
Á efri árum sínum flutti Einar til Vestmannaeyja og dvaldi hjá syni sínum, er Jón hét. Þá var Sigríður hans dáin. Sótti þá í fyrra horf með skaplyndi hans, talaði hann lítið og fór einförum, en var illskiptinn og önugur, ef á hann var yrt. Réri hann þá á grunnin, einn á báti, og fiskaði bærilega.
Abel hét sýslumaður í Eyjunum****.
****Abel sýslumaður var í Vestmannaeyjum 1821—1851.
Hann átti bát í félagi við bónda einn. Einhvern morgun fékk Einar Ormsson bát þennan léðan hjá bóndanum, og vissi sýslumaður eigi um það. Þegar Einar kom að með bátinn hlaðinn, mætir hann Abel sýslumanni í fjörunni. Hafði hann frétt um daginn, að Einar réri báti hans, og hugði hann tekinn í óleyfi. Sýslumaður ræðst að Einari með ónotum, segir hann óheimildarmann að bátnum og mátulegt að refsa honum fyrir. Sé það nú orðið mál, að hann taki út hegningu fyrir gamlan og nýjan þjófnað. Einar svaraði engu. Espast þá sýslumaður að honum, þrífur í axlir hans og skipar honum að koma þegar í stað í tugthúsið. Skuli hann, gamli útilegumaðurinn og sauðaþjófurinn, játa þar glæpi sína. Einar fer með honum, án þess að malda í móinn. En þegar minnst varir, þrífur hann til sýslumanns og bregður honum hælkrók. Féll Abel endilangur ofan í slorfor, sem var rétt við veginn, en Einar gekk heim til sín rólegur, svo sem ekki hefði í skorizt. Einhverjir urðu til þess að draga sýslumann upp úr forinni og bjuggust þeir við, að Einars biði makleg málagjöld. Næsta dag fékk Einar orð frá sýslumanni að finna hann. Fór Einar á fund hans, þó að ekki byggist hann við góðu. Sýslumaður tók vel á móti honum, segist hann nú vita, að hann hafi tekið bátinn í fullu leyfi, og þyki sér vel á fara, að hrakningar þeirra beggja jafnist. Síðan gefur hann Einari spesíu og brennivínsflösku. Sat Einar þar lengi hjá sýslumanni og kom til hans oft síðan. Var það almæli, að honum hafi Einar sagt alla æfisögu sína.
(Þessi saga er skrifuð eftir Þorsteini bónda á Vatnsskarðshólum árið 1895. Hann sagði, að stúlkubarnið, sem undir hellunni lá í vöggunni, yrði síðar seinni kona Eyjólfs Þorsteinssonar bónda í Steig, og hin mesta dugnaðarkona. Hún hét Kristín. Áður en hún giftist Eyjólfi, átti hún lausaleiksbarn með Runólfi Sigurðssyni í Skagnesi. Var það Einar, er síðar bjó lengi í Steig og þótti um margt einkennilegur, en duglegur og hagsýnn búmaður. Eyjólfur bjó í Steig fram yfir 1870 eða þar á við). Eyjólfur Guðmundsson á Hvoli í Mýrdal.
(Gráskinna I. 82—88. Með dómi Landsyfirréttar 9. ágúst 1809 var Einar Ormsson í Pétursey dæmdur í fyrsta sinn fyrir þriðja hórdómsbrot til að greiða 9 ríkisdali courant. Kona hans hét Ásdís Þorgilsdóttir og bjuggu þau í Rangárvallasýslu, en skildu samvistir vegna örbirgðar. Tók Einar saman við Sigríði Einarsdóttur ekkju í Pétursey að konu sinni lifandi og dvaldi hjá henni „eigi án hneykslis“. Héraðsdómur í hórdómsmálinu uppkveðinn 16. júní 1808 varð ekki birtur honum, því að hann strauk og „varð ósýnilegur langa stund“. Landsyfirréttur telur Einar „tvídæmdan og straffaðan“ fyrir þjófnað. Í forsendum úrskurðar Landsyfirréttar 29. ágúst 1808 er talið að ekki sé ósennilegt, að Einar sé sá Einar Ormsson, eigingiftur sjóróandi haustmaður frá Holtssókn í Rangárvallasýslu, sem vinnustúlkan Kristín Magnúsdóttir á Gjábakka í Vestmannaeyjum kenndi barn, sem hún ól 29. september 1803, og þar lagt fyrir Jón Guðmundson sýslumann í Vestur-Skaftafellssýslu að rannsaka það atriði.
(Landsyfirréttardómar (Sögufélagsútgáfan) I. 290—-295, 314—316).
Sótt á vef, 19-APR-2023, heimaslod.is
Um sannleikskildi sögunnar: var Einar Ormsson í alvörunni til?
Um sannleiksgildi þessarar sögu er hér ekkert sagt en í Íslendingabók er bara einn Einar Ormsson skráður samtímamaður Sveins Pálssonar læknis en það Einar Ormsson fæddur árið 1764 og dáinn 3. jan. 1851. Um hann er sagt í Íslendingabók:
Bóndi á Litlagerði og Litla-Moshvoli í Hvolhr., Rang. Vinnumaður í Neðridal, Stóradalssókn, Rang. 1801. Vinnumaður á Tjörnum 2. Stóradalssókn, Rang. 1816. Dæmdur fyrir hórbrot árið 1809 en tekið var tillit til þess að „vegna örbyrgðar og skorts á nauðsynlegu viðurværi, neyddist Einar til í fyrstu að yfirgefa konu sína“.
Sveinn Pálsson læknir lifði 1762 – 1840 þannig að hann hefur þá verið samtíðarmaður þessa Einars Ormssonar. Aðrir sem bera þetta nafn á svipuðum tíma eru tveir skv. Íslendingabók. Annar dáinn 1797 og kemur varla til greina og hinn fæddur 1798. Sá er reyndar skráður hafa verið á Núpi í Holtssókn undir Eyjafjöllum, þannig að hann hefur ekki verið langt frá sögusviði útilegumannsins. Það sem er reyndar sérkennilegast með það er að skv. heimildum á vef Heimaslóðar þá tengist Einar Ormsson fæddur 1764 bænum Núpi og er raunar faðir Einars Einarssonar sem fæddist þar 1796.
Það er nefnilega á vefnum Heimaslóð fjallað sérstaklega um Einar Ormsson sem fæddist árið 1764 á Minni-Moshvoli þar og lést 3. janúar 1851 í Vestmannaeyjgum. Sá Einar Ormsson átti börn með fjölmörgum konum og þar á meðal Sigríði Einarsdóttur og dóttir þeirra Kristín Einarsdóttir bjó á Steig og var gift Ejólfi Þorsteinssyni. Sjá nánar á vef heimaslóðar. Það sem kemur fram um þennan Einar Ormsson passar svona að mestu leyti við söguna um útilegumanninn og e.t.v. er sannleikskornið í sögunni það að hann hafi lagst út vegna vandamála sem hann var að glíma við vegna allra þeirra lausaleiksbarna sem hann átti út um allt – skv. því sem kemur frm um hann átti hann 12 börn með 10 konum. Var giftur þeirri sem hann átti þrjú fyrstu börnin með en ekki neinni annarri og var líklegast áfram giftu þeirri fyrstu allan þann tíma.
Sótt á vef heimaslóðar:
Einar Ormsson á Gjábakka, áður bóndi í Litla-Gerði og Litla-Moshvoli í Hvolhreppi, fæddist 1764 á Minni-Moshvoli þar og lést 3. janúar 1851 í Eyjum. Foreldrar hans voru Ormur Jónsson bóndi á Litla-Moshvoli, f. 1710, d. 9. apríl 1786, og kona hans Geirlaug Einarsdóttir húsfreyja, f. 1716, d. 3. janúar 1808.
Einar var vinnumaður í Neðridal, Stóradalssókn, Rang. 1801, var á vertíð í Vestmannaeyjum haustið og veturinn 1802-1803. Haustið 1803 var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi. Hann sat af sér dóminn á Arnarhóli í Reykjavík veturinn 1803-1804, en var líklega í Reykjavík fram á sumar 1806. Hann var dæmdur fyrir hórbrot árið 1809.
Einar og Ásdís voru vinnuhjú á Tjörnum 1816 og líklega á Brúnum 1817 til 1821. Þau bjuggu í Syðrirotum til 1828.
Ásdís lést 1828.
Einar kom líklega 1830 að Bakkakoti á Rangárvöllum, fór þaðan 1832 að Þúfu, var húsmaður (búlaus) á Klasbarða, síðan í Miðkoti 1835, Hrauk 1837 en í Rimakoti í Djúpárhreppi 1840 og í Búð 1845. Einar var til heimilis hjá Jóni yngri syni sínum á Gjábakka 1850, 89 ára ekkill.
- I. Kona Einars, (21. september 1789), var Ásdís Þorgilsdóttir húsfreyja, f. í janúar 1753 (skírð 21. janúar) í Ártúnum á Rangárvöllum, d. 13. febrúar 1828. Foreldrar hennar voru Þorgils Markússon bóndi á Gaddstöðum á Rangárvöllum, f. 1706, d. í desember 1759 í Ártúni (Hátúni) þar, og kona hans Neríður Snjólfsdóttir húsfreyja, f. 1713, d. 28. mars 1784 í Ártúni (Hátúni).
Börn þeirra hér:
1. Jón Einarsson eldri, bóndi á Gjábakka, f. í apríl 1789 (skírður 11. apríl) í Ártúnum á Rangárvöllum, d. 21. mars 1838.
2. Ingveldur Einarsdóttir vinnukona á Arnarhóli í V.-Landeyjum, f. 21. september 1790 á Stórólfshvoli í Hvolhreppi, d. 7. mars 1827. Barnsfaðir Einar Lafranzson.
3. Einar Einarsson bóndi í Skurðbæ í Meðallandi, f. 3. nóvember 1791, d. 7. júní 1866. Fyrri kona hans var Guðrún Guðmundsdóttir. Önnur kona hans var Kristín Árnadóttir. Þriðja kona hans Sigríður Árnadóttir. - II. Barnsmóðir Einars var Þjóðlaug Jónsdóttir, f. 1760. Hún var húsfreyja í Litla-Gerði í Hvolhreppi 1801. Barn þeirra var
4. Jón Einarsson yngri, Abel, bóndi á Gjábakka, f. 1792 d. 11. apríl 1861. Kona hans Sigríður Sæmundsdóttir. - III. Barnsmóðir Einars var Ingveldur Jónsdóttir, húsfreyja á Núpi u. Eyjafjöllum, f. 7. desember 1775, d. 11. júní 1850. Barn þeirra:
5. Einar Einarsson bóndi á Núpi u. Eyjafjöllum, f. 30. september 1796, d. 6. apríl 1848. Kona hans Kristín Auðunsdóttir. - IV. Barnsmóðir Einars var Kristín Markúsdóttir vinnukona, þá á Gjábakka, f. 1777. Barnið var
6. Guðrún Einarsdóttir, f. 29. september 1803, d. 6. október 1803 úr ginklofa. - V. Barnsmóðir Einars var Guðrún Ólafsdóttir vinnukona í Núpakoti u. Eyjafjöllum, f. 1758. Barn þeirra:
7. Björn Einarsson, f. 4. ágúst (skírður 10. ágúst) 1797, d. 14. ágúst 1797. - VI. Barnsmóðir Einars var Guðný Þorsteinsdóttir, síðar húsfreyja í Reykjavík, f. 1776 í Þorlákshöfn, d. 6. júní 1840. Barn þeirra:
8. Eggert Einarsson bóndi í Saurbæ Skeggjastaðasókn í Þistilfirði, f. 21. júlí 1806 í Reykjavík, d. 11. mars 1863. Kona hans Ólöf Guðlaugsdóttir. - VII. Barnsmóðir Einars var Guðrún Erlendsdóttir, síðar húsfreyja í Steinum u. Eyjafjöllum, f. 7. janúar 1799 á Syðri-Brennu u. Eyjafjöllum, d. 28. júlí 1843. Barn þeirra:
9. Benóný Einarsson, f. í júlí 1826 u. Eyjafjöllum, d. 1. nóvember 1826. - VIII. Barnsmóðir Einars var Þuríður Jakobsdóttir, vinnukona á Efri-Kvíhólma u. Eyjafjöllum, f. 3. mars 1801 í Selkoti u. Eyjafjöllum, d. 6. apríl 1859. Barn þeirra:
10. Einar Einarsson, f. í júní 1830 u. Eyjafjöllum, d. 1. júlí 1830. - IX. Barnsmóðir Einars var Sigríður Einarsdóttir, f. 1772 á Flankastöðum á Reykjanesi. Barn þeirra:
11. Guðríður Einarsdóttir, f. 1. desember 1808 á Lambastöðum á Reykjanesi, d. í mars 1812 á Reykjanesi. - X. Barnsmóðir Einars var Sigríður Einarsdóttir, síðar húsfreyja í Pétursey, Skagnesi og á Litlu-Heiði í Mýrdal, f. 1776, d. 23. júlí 1843. Barn þeirra:
12. Kristín Einarsdóttir, f. 1807 í Pétursey, d. 16. maí 1876 í Steig í Mýrdal. Barnsfaðir hennar Runólfur Sigurðsson. Maður hennar Eyjólfur Þorsteinsson.
Önnur tengd saga um útilegumanninn Einar, sem núna er Einarsson
Síðan er til hjá Örnefnastofnun talsvert sambærileg lýsing, höfð eftir Þórði Tómassyni, þar sem útilegumaðurinn heitir Einar Einarsson og sagt að hann hafi lagst út í hellinum Einarsskemmu í Stórhöfða milli Lambár og Hafursár. Þessi Einar átti einnig konu sem hét Sigríður. Hjá Örnefnastofnun kemur fram (sjá pdf skjal frá Örnefnastofnun):
Nú skal halda fram Lághöfða. Töluvert neðan við Þvergilin er Karlsflötur, beint vestur af Karli í Dalaheiði, austan Hafursár. Þá gengur hér Selgil upp frá Hafursáraurum. Í því, norðan við lækinn og niður við aurinn, er hellir, sem heitir Einarsskemma. Hæðin uppaf honum heitir Einarsskemmuhaus (22). Um nafnið er eftirfarandi saga: Í Pétursey bjó laust fyrir miðja 19. öld bóndi, er hét Einar Einarsson, ættaður úr Meðallandi, og kona hans, Sigríður Einarsdóttir. Einar var undarlegur í skapi og hátterni. Þá var siður manna í Pétursey að fara í Stórhöfða og grafa upp hvannarætur til manneldis. Einar var þess fullviss, að til væru útilegumenn og þóttist í draumum standa í sambandi við þá. Haust nokkurt, þegar Eyjarmenn fóru til róta, skrifaði Einar útilegumönnunum bréf með letri, sem enginn gat lesið, og bað þá að skilja eftir á tilteknum stað í Stórhöfða. Var bréfið þess efnis, að hann bað þá að taka við sér og konu sinni á tilteknum degi. Ætlaði Einar á þennan hátt að losna við ómegð sína, sem reyndar var ekki þung. Áttu rótarmenn að koma með svar, en þar sem það brást, tóku þau hjón sig upp á næturþeli og yfirgáfu allt sitt heima, nema búsáhöld og annað, er þau þurftu með sér að hafa, og héldu upp í Stórhöfða og settust að í helli þessum, sem síðan heitir Einarsskemma. Biðu þau þar útilegumanna, en þegar þeir komu ekki og vistir þrutu, héldu þau aftur heim til Péturseyjar.
Þetta eru í raun það líkar sögur að mjög líklegt er að um sama mann sé að ræða þó föðurnafn hafi skolast eitthvað til.