Saga af smölun á Fellsheiði úr ritverkinu “Göngur og réttir”
Í Landnámi Loðmundar gamla, sem Landnáma segir nokkuð frá eru heiðar hrjóstugar. Á það við afréttalönd hin meiri, Í Skaftafellssýslu og víða um land, eru þessar heiðar ekki að víðáttu – þær eru heldur ekki virtar þess að heita afréttir – nema að litlu leyti.
Milli Jökulánna Fúlalækjar og Klifandi, sem báðar koma undan Mýrdalsjökli, liggja Sólheimaheiðar, sundurskornar af giljum og lækjum. Yfir að líta sýnast þær gróðurlitlar og hrjóstugar. Austan Klifandi og allt í milli Holtsár, sem er að mestu bergvatnsá, heitir Fellsheiði, og takmarkast við rætur Mýrdalsjökuls, eins og allar heiðar og afréttir í Mýrdalnum. – Klifandi kemur úr falljökulstanga. Þar heitir Klifandigil, alltaf nefnt Klifrárgil. Þar eru hamrar til beggja handa, víða háir og tröllalegir. Þannig er um flest önnur þau gil, sem í Fellsheiði eru.
Hæst ber á Hrosshömrum, sem er fjall austan til í heiðinni. Þar er fé oft og beit góð í dældum milli klettahryggja, og var jafnan besti smalamaðurinn látinn fara eftir Hrosshömrum.
Á þeim árum, 1880-1890, þegar þetta gerðist, smöluðu Fellsheiðina ævinlega 5 menn í haustsöfnum, og var þó frestað að fara í Lambatungur. Lambatungur eru heiðarhryggir og fjalllendi, innilokað milli Klifrárgils og Fossgils, og eru nokkuð breiðar inn við jökul, en ganga fram í þríhyrnu milli giljanna, síðast í mjóan rana milli Fossgilsár og Klifandi.
Lögsöfn í Mýrdalnum voru, þegar þrjár vikur lifðu sumars, og sett á mánudag og þriðjudag. Síðasta þriðjudag í sumri skyldi lögsöfnum lokið. En eftirsöfn voru eftir tíðarfari fram eftir vetri. Og auk þeirra eftirleitir.
Fellsheiði var smöluð á einum degi. Mánudaginn í 24. sumarviku vöknuðu smalarnir kl. 4 að morgni og settu niður að vera komnir „inn fyrir“ í sauðbjörtu. Fóru þeir nokkuð samsíðis í Vesturheiðina og stugguðu við fé, er á vegi þeirra varð, austur á bóginn.
Ekki þótti Fellsheiði þess verð, að fjallkóngur væri þar eða leitarforingi, heldur var einhver, sem af sjálfsdáðum og kunnugleik tók sig fram um að setja menn Í leitir og segja til um smölunina. Nú var það roskinn maður, Árni Sigurðsson, hressilegur og harðger, en Ókunnugur heiðinni. Hann var að öllu röskur, en hafði vanið sig á að fara sinna ferða með brennivínsflösku í barminum og skeytti lítt um venjur og fyrirskipanir.
Nú var venja sú, að taka féð úr Klifrárgili og Lambhaga og setja þar upp „ofanferð“ en „slauka“ Fossgili til Lambatungnasafnsins. Ekki vildi Árni heyra það og fór sjálfur með féð úr Lambhaganum norður eftir Fossgili. Ég var þá á fermingaraldri og vel að mér í smalabálki, sem frá fornu gilti um Fellsheiði. Mín leit var og ákveðin norður Bjarnhillubrýr og svo efri leiðin suður Hrosshamra. Árni skyldi líka smala fram Hrosshamra, er hann kæmi úr Fossgili.
Vegna hættulegra og viðsjálla skriðufláka í Fossgili var þar seinlegt að smala og ekki meðalsmala hent. Þess vegna er reynt að setja svo niður smölun í Klifrárgili, að sem fæst fé yrði í Fossgili. Nú hafði allstór hópur hlaupið inn í Fossgil undan Árna, eins og hann líka stofnaði til. Leið svo fram á hádegi, að ég varð hans ekki var, nema hvað ég heyrði í hundinum hans og markaði á því, að Árna miðaði lítið áfram. Þegar svo enn leið stund og ekki mátti lengur fresta að smala austur heiðina, var ekki um annað að gera en snúa sér að því. Fyrst vildi ég þó vita, hvað Árna liði, og hætti mér á utustu nöf Í gilbrúninni, ef þaðan mætti koma auga á hann.
Nokkrar kindur sá ég á rás upp undir Skriðuflá og aðrar niður undir Fossgilsá. Þær fóru hægt og lítil styggð á þeim. En auðráðið var, að ekki var Árni kominn innarlega í gilið, þar sem mest á reyndi. Færði ég mig enn ofan Í gilið og gat náð tveim kindum, sem hlaupið höfðu undan Árna og voru á réttri leið.
Fast niður við ána í gilinu sá ég nú Árna; hann sat þar á steini. Þarna var hann lifandi kominn! Ekkert að gera annað en láta hann eiga sig. Það vantaði svo annan manninn Í Hrosshamra, og gekk safnið seint fram. Alltaf var keppst við að komast Í réttína um kl. 4. Nú tókst það ekki. Með mestu herkju, þótt fljótfærnislega væri smalað Fellsfjall, varð réttað um kvöldið, og Árni þá ekki kominn að með Fossgilssafnið.
Venjuleg gleði og gaman var ekki Í réttinni og óttuðust menn um Árna. Máske hefði hann hrapað í Fossgili? Að næturlagi var ekki auðvelt að leita hans. Það varð samt að gera. Mér var ámælt fyrir að hafa hlaupið frá honum. Betra að láta ósmalað en missa manninn. Eigi að síður voru óskilin dregin og byrgð inni. Strax að næsta morgni skyldi reka þau í skilaréttina í Pétursey.
Roskinn vinnumaður og annar skarpduglegur fjármaður, sem komið hafði í Fellsrétt og var mjög handgenginn heima, fóru til þess að skyggnast eftir Árna. Nóttin var skuggaleg þar í Klifrárgilinu, og hamrarnir tóku undir við árniðinn, svo að hljóðglöggt var ekki. Sögðu þeir svo frá ferðalagi sínu:
Það var vel ratljóst og veðrið gott. Þeir kölluðu og siguðu, ef hundurinn gæfi sig fram, sem fylgdi Árna. Eflaust hefir hundurinn heyrt til þeirra. Hann kom á móti þeim innst í Lambhaganum. Tók hann svo „rúntinn“ undan þeim inn í Fossgil. Seinlegt var þar um að komast. Ýmist varð að hlaupa á steinum í ánni eða klifrast yfir snasir í gilhamrinum. Þeir gættu þess að missa ekki sjónar á hundinum, og það var líkast því, að hundurinn vissi það. Hann fór ýmist á spretti, svo að hann hvarf þeim, eða kom aftur og flagraði til þeirra.
Segir svo ekki af ferðinni fyrr en þeir heyra þar í bergnefi einu einskonar óm, Það var eflaust huldufólk að syngja. Hlusta þeir og hlusta, og söngurinn verður skýrari. Nú færast þeir nær og heyra glöggt að niðurlag söngsins er; ,, „ . . . ég drakk mig svo fullan – ég segi það satt – ég sá hvorki veginn né daginn.“ Þarna hlaut Árni að vera. Hundurinn var kominn til hans og gelti af feginleik. En að stallinum, sem Árni lá á, var enginn hægðarleikur að komast. Snarbrattir bergfláar voru á báðar hendur með örlitlum skriðumulningi, sem rann undan fæti, og hengi fyrir ofan og neðan. Þetta hafði Árni samt komist, líklega á eftir kindum, en ekki treyst sér til baka. Hann var með „heillu“ sína, þá brúnu, Í barminum að gómlum vana. Og hún kom honum nú að því liði, að hann undi þarna og sýndist ekkert feginn, þegar hann heyrði Í leitarmönnunum.
Veðrið var gott og nóttin ævintýraleg í Fossgili. „Og ég var ekki aldeilis einn,“ sagði Árni. „Fyrst hafði ég hana Brúnku mína – og svo voru náungar í klettanefinu, sem tóku undir með mér – það var eins og í brúðkaupsveislu. Þeir voru glettnir, skrattakollar, og vildu hrinda mér ofan fyrir; mátti ég verjast þeim með karlmennsku.“
Hvorugur leitarmanna áreiddi að hlaupa fláann til Árna. Þeir tóku það til ráða að standa fyrir neðan með band í milli sín og skipuðu Árna að renna sér niður til þeirra. Það var heldur ekki hættulaust, því ef þeir handfestu hann ekki, var dauðinn vis í Fossgilsá. Ef þeim skriðnaði fótur við að fá hann ofan á sig með miklu falli, lá ekki fyrir annað en að þeir hrytu allir ofan af undirbrúninni, sem þeir stóðu á — þetta var þó þeirra snjallræði.
Leitarmennirnir sögðu svo seinna, þegar um þetta var talað, að þeir hefðu runnið á brennivínslyktina og þannig hitt á hann Árna, þó að nótt væri, Nefndum við svo þennan hamraseta í Fossgil „Brennivínsseta“, Eflaust er örnefni þetta horfið, en það er bending til, að atvík lík skapa oft nöfn að litlu tilefni, sem svo máske haldast uppi og valda mönnum heilabrota.