Háifoss má teljast tilkomumesti fossinn á Fellsmerkursvæðinu og einfaldast er e.t.v. að ganga að honum að vestan. Gangan hefst þá áður en farið er austur yfir Holtsá á brúnni. Þá er gengið er upp með Holtsá á hægri hönd.
Það þarf að komast yfir smálæki sem stundum eru þurrir en eiga upptök sín í Þurragili, Selgili og Brókargili. Af þessum þá er það helst lækurinn úr Selgili sem má treysta á að hafi eitthvað vatn en hinir eru oft þurrir. Í eðlilegu tíðarfari ætti að vera auðvelt að stikla þessa læki.
Einfaldast er að fylgja nokkurn veginn vegarslóða sem liggur þarna áleiðis inn á Fellsheiðina en ekki sleppa samt alveg að kíkja ofan í Selgilið sem er þar á vinstri hönd. Það væri raunar líka tilefni fyrir annan göngutúr inn Selgilið en þar eru t.d. nokkrir skemmtilegir litlir fossar.
Sá hluti gönguleiðarinnar sem er á vegslóðanum er einnig upplagður sem hjólaleið.
Vegarslóðinn var lagður fyrir einhverjum áratugum og væntanlega hugsaður til að auðvelda það að koma sauðfé í sumarhaga upp á Fellsheiði en hún er annars ekki notuð að ráði fyrir beit lengur. Vegarslóðanum er fylgt áfram að mestu þangað til hann fer að hlykkjast á æfintýralegan hátt áleiðis upp á Fellsheiðina.
Áður en í mestu hlykkina er komið er slóðinn yfirgefinn og genguð til hægri í austurátt, að Holtsánni. Þar komum við nokkurn veginn að fossinum sem sést þokkalega þarna úr vesturátt. Gengið er norðan í lítilli hæð merkt 393 m á kortum og þá sést fossinn örlítið ofar í ánni.
Svo er haldið niður með gljúfrinu og augum skotrað á fossinn sem oftast.
Genginn er smá hringur þarna umhverfis 393 m hæðina áður en farið er til baka aftur og ágætt að fylgja vegarslóðanum til baka.
Yfirlit yfir gönguna:
– Göngulengd: 7 km
– Hækkun: 350 m
– Tími: 2-3 klst
Gengið að Háafossi austanmegin
Einnig er hægt að ganga að fossinum að austan og hefst þá gangan í landi Holts, rétt austan við brúna á Holtsá. Ánni er fylgt eftir um Holtsheiði og eftir um 3 km göngu er komið að fossinum. Þarna austan megin fæst raunar jafnvel betra útsýni að fossinum þar sem auðvelt er að komast nær honum en vestan megin.
Þar sem Holtsá fellur þarna á löngum köflum í 100 til 200 metra djúpu þverhníptu gljúfri, þá er hins vegar ekki nokkur leið að komast yfir ána.