---------------------- Erindi Valdimars af aðalfundi 2012: Umhirða trjágróðurs
|
Fell Birt með leyfi Örnefnastofnunar Íslands Bærinn Fell í Mýrdal stendur sunnan undir Fellsfjalli (1), sem skagar fram úr hálendinu, neðan Mýrdalsjökuls. Austan við Fellsland tekur við land Holts og Álftagrófar. Skilur Holtsá (2), sem fellur fram úr heiðinni eftir Holtsgili (3), þar á milli. Að vestan, milli Eystri-Sólheima og Fells, er Klifrárgil (4) í mörkum. Eftir því fellur áin Klifandi (5). Hún hefur áður runnið vítt og breitt um undirlendið framan heiðarinnar, um Klifandaaura (6), stundum haft farveg til sjávar vestan Péturseyjar. Stórkostleg landspjöll hafa orðið af völdum hennar. Nú hafa Klifandi og Hafursá sama farveg til sjávar, niðri á láglendinu. Fellsbærinn stóð til skamms tíma suðvestur frá Fellsfjalli, þar sem nú heitir Gamla-Fell (7). Á seinni hluta 19. aldar lagðist Klifandi heim undir bæjarstæðið og gerði þar óbyggilegt. Má m.a. lesa um það í þætti Ögmundar í Auraseli, eftir Eirík Ólafsson á Brúnum. Sr. Gísli Kjartansson flutti bæinn á núverandi bæjarstæði laust fyrir aldamótin 1900. Á Felli hafði verið bænhús og hélt því nafni löngu eftir að farið var að nota það sem hesthús. „Það stóð austast í bæjarhúsaröðinni“ (Eyjólfur á Hvoli). Það var síðasta hús, sem stóð á Gamla-Felli og féll að lokum niður í tótt. Brotsárið eftir Klifanda er nú í bæjarhólnum gamla, rétt hjá rústunum.Bærinn var fluttur í hjáleigustæði. Hét bær þar Högnavöllur (8) og var í byggð um 1880. Fell var á liðnum öldum til skiptis byggt af prestum og bændum. Þar sat á 17.öld Einar Þorsteinsson sýslumaður. Á 18.öld var þar frægastur ábúandi sr. Jón Steingrímsson, og segir hann margt frá Felli í ævisögu sinni, ekki sízt um völvutollinn svonefnda. Fellsörnefni í bók hans eru: Kleifarárgljúfur, Lambhellir, Maríulækur, Smiðjuhóll (útg. 1945). Eyjólfur Guðmundsson rithöfundur á Hvoli í Mýrdal hefur skráð örnefni á Felli, einnig Eiríkur E. Sverrisson kennari. Magnús Finnbogason frá Reynisdal skráði Fellsörnefni eftir Vilhjálmi Hallgrímssyni frá Felli. Ari Gíslason kennari endurskoðaði þá skrá og naut þar tilsagnar Sveins Hallgrímssonar frá Felli og Tómasar Lárussonar í Álftagróf. Skrá Ara var síðan yfirfarin með þeim Sveini og Jóni Hallgrímssonum frá Felli sumarið 1967. Eyjólfur á Hvoli nefnir þessi örnefni á Felli í bókum sínum: Lengi man til lítilla stunda og Vökunætur: Austurbrúnir, Bjarnhilla, Bjarnhillubrýr, Botnar, Brækur, Dagteigur, Einbúi, Fellsbrekkur, Fellsfjall, Fellsheiði, Fellsmýri, Fitjar, Fjallsendatorfa, Fossgil, Fossgilsá, Heiðarhorn, Heiðarhús, Hrafnaberg, Hrafnabjörg, Hrosshamrar, Húðarból, Högnavalladý, Högnavallatún, Klifandi, Klifandaaurar, Klifrárgil, Króktorfa, Kvíalág, Lambatungur, Lambhagi, Landadý, Lynghöfði, Lækjarmýri, Norðurhóll, Nýjatún, Rauðilækur, Rauðalækjarbakki, Selgil, Skjólkambur, Snjókambar, Smiðjuhóll, Völvureitur, Þagggil, Þrengsli, Þurgilslækur. Vísað er til þess, hvar sum þessi örnefni eru, í bókum Eyjólfs, og verður stuðst við það hér í skránni. Í dagbókum Einars Einarssonar bónda á Felli 1888-1891 eru þessi örnefni í skrá um fýladráp og skrám um heyfeng: Blesutó, Brækur, Bæjargil, Bæjarhaus, Dagteigur, Enni, Högnavallarmýri, Lambhúshóll, Langivangi, Nýjatún, Pálsbrekka, Rauðilækur, Reitur (= Völvureitur), Selgil, Sléttur, Smiðjuhóll, Þrætustykki. Brekkurnar sunnan og vestan í Fellsfjalli heita einu nafni Fellsbrekkur (9). Inn frá fjallinu er Fellsheiði (10), milli Klifrárgils og Holtsgils. Hér verða þá talin örnefni frá núverandi bæ, inn með Fellsfjalli að austan: Austan við túnið er Fellsmýri (11). Því nær neðst í brekkunni vestur frá bænum er Völvureitur (12). Ekki mátti slá hann. Í honum er leiði völvunnar „þar sól skín fyrst á og fer síðast af“ (J.S.). Ábúendur á Felli greiddu árlega fátækum í Mýrdal toll „fyrir utan tíund sína“, fergi-skyrtunnu eður 30 álnir eður 60 fiska. „Þessi tollur kom þanninn til: Sagt er, ein valva hafi búið í páfadómi á Felli og jafnvel átt þá jörð... Hún skyldi hafa heitið á fátæka á einum pestartíma að gefa þeim árlega þennan 30 álna toll, ef pestin dræpi engan á sínum bæ af ungfólki, hvað og svo við borið hafði. Og svo varð mikill átrúnaður á þessum tolli, að allt svo lengi hann væri goldinn mundi þar ei ungbarn deyja... Þar að auki áttu Fells ábúendur að vera framar öðrum búsældarmenn fyrir útsvar hans“ (J.S., 159). Ábúendur á Felli héldu jafnan við leiði völvunnar. Næst bænum á Felli, að vestan, er Pálsbrekka (13). Pálsbrekkuenni (14) er seti þar vestan við. Völvureiturinn er þar vestur og niður af. Klettabeltið upp af bænum nefnist Smáklettar (15). Suðurendi Fellsfjalls kallast Bœjarhaus (16). Ofan við túnið, rétt ofan við bæinn, er stór hóll, sem heitir Svínhóll (17). Þar voru lambhús. Austan til í Bæjarhaus er Stórasvelti (18). Austast á Bæjarhaus eru Nóntorfur (19) og í þeim miðjum er Nóntorfusvelti (20). Miðja vegu milli Nóntorfusveltis og Blesutóar er Kristínarklettur (21). Milli Kristínarkletts og Nóntorfu er klettadrangur, sem heitir Karlsnef (22). Vestast í Bæjarhaus er 60 m loftsig, sem heitir Stórigapi (23). Þar er nú ekki loft, því hrapað hefur úr brúninni. Í Smáklettum, vestarlega og neðarlega, er skúti, sem kallast Pínuskúti (24). Skammt norðan við Kristínarklett er hamrabelti, sem heitir Blesutó (25). Norðaustur af Blesutó eru grasivaxnir fláar, sem heita Snjókambar (26). Þar innaf er norðurendinn á Fellsfjalli, er nefnist Fjallsendi (27). Neðan undir Snjókömbum er Þuragil (28). Í því er slútandi standhamar, sem heitir Húðarból (29). Þar voru þurrkaðar húðir. Gegnt Snjókömbum er allstór rani bungumyndaður. Heitir þar Standur (30). Austan hans heitir Selgil (31). Efst í því eru Selgilsbotnar (32). Sunnan við Selgil er Seltorfa (33). Beint niður af Snjókömbum er torfa með flagi í miðju. Hún heitir Gluggatorfa (34). Norður af Snjókömbum er blásið sker, nafnlaust. Þar norður af eru Hrosshamrar (35), talsvert víðáttumikið svæði. Austur af þeim er mosahryggur, sem heitir Grænkambur (36). Er þá komið að Fellsheiði, sem er lítt gróin á þessu svæði, inn að jökli. Undir Hrosshömrum eru upptök Selgils. Vestan megin í Holtsgili er bjarg, sem heitir Fýlaklettur (37). Rétt innan við hann hröpuðu vinnumenn sr.Gísla Thorarensen á aðfangadagskvöld 1901 og biðu bana af. Brókargil (38), moldrunnið, er sv. af klettinum. Skal nú á ný horfið heim að bæ og talin örnefni vestan í móti í Fellslandi. Tvö örnefni voru vantalin í Bæjarhaus: Hallvarðarhilla (39) er þar í áframhaldi af Stórasvelti til vesturs. Þar var aðhald til að ná kindum. Klakkur (40) er standur, sem skjagar (svo) út úr Bœjarhaus, og sést vel frá bænum. Þar var setið undir við fýlatekju. Á láglendinu, suður undir Péturseyjarmarki, var graslendi, sem nefndist Fellsfit (41). Þar voru aðalhrossahagarnir á Felli á sumrin.Vestur af Völvureit, suðvestan í Fellsfjalli, er Fjallsendatorfa (42), hæsta torfan á því svœði. Brekkurnar milll reitsins og torfunnar eru nafnlausar. Innan við Fjallsendatorfu er Geiratorfa (43). Sunnan í henni er Langivangi (44). Upp af torfunum eru svonefndar Skálar (45). Skal nú vikið heim að gamla bæjarstæðinu. Austan við það er Bæjarlækur (46). „Túnhæðin austan bæjarlækjarins“ nefnist Smiðjuhóll (47) (E.G.). Brækur (48) nefnast „sléttar flatir þar norður frá“ (E.G.), niðurundan Geiratorfu. Lækurinn fellur um Bæjargil (49). Inni í Bœjargili er Þvottaból (50). Þar var þurrkaður þvottur, er illa gekk með þurrk. Vestan við lækinn er Lambhúshóll (51), og þar innar er Langatorfa (52), sem nær upp að hæð, sem heitir Háahraun (53). Austan við lækinn er lítið gil, sem heitir Þvergil (54). Í því er stór hellir, sem kallast Fjárból (55). Innst í Bæjargili eru Þrengsli (56), og innan við þau eru Botnar (57). „Hamrar lágu þar að, og hét hæsta brúnin Skjólkambur (58) og Hrafnabjörg“ (59) (E.G.). Vestur og norður af túninu á Gamla-Felli er allmikið graslendi, sem heitir Heiði (60). Við Heiðina er stór grashóll, skorinn frá henni af Klifanda. Hann heitir Einbúi (61). „Vestur frá heimaheiðinni var Þagggil (62), lítið og ljótt gil, allt með mosavætlum frá berginu“ (E.G., 88). Þetta mun vera sama gil og í skrá Ara Gíslasonar er nefnt Þakgil. (Þarf handrit Eyjólfs á Hvoli hér til betri samanburðar.) Næst þessu er að telja Þakgilsmýri (63). Hækkar hér landið og er komið að Skjólkambi. Áframhald af honum er Botnabrúnir (64). Vestan við mýrina er Húsadalur (65) og vestur af honum Butrudalur (66), og er þá komið að Klifrárgili. „Þá var fyrir innan Þrengslin kallað Botnar. Það voru tvö gil, sem mynduðu hring um hraunhæð eina mikla. Hamrar lágu þar að, og hét hæsta brúnin Skjólkambur og Hrafnabjörg“. (Lengi man til lítilla stunda, bls. 88.) Fremst í Klifrárgili, austanmegin, er Lynghöfði (67). Innan við hann er sker, sem heitir Ofanferð (68). Eyjólfur á Hvoli lýsir Klifrárgili hér fyrir innan á þessa leið í bók sinni, Lengi man til lítilla stunda: „Svo lokaði Fossgilsá (69) alveg veginum, og gilið klofnaði. Eystra gilið heitir Fossgil (70), og sem næst miðjum háhömrunum er stallur eða hilla. Fjárgata liggur þar fyrir hornið á Austurbrúnum (71) og hengiflug bæði fyrir ofan og neðan. Þar beljar Fossgilsá undir. En þegar fyrir hornið kemur, opnast Fossgil og heitir þar Lambhagi (72). Þrengist þá gilið. Hilla þessi [fjárgatan] er nefnd Lambhilla (73) og þar voru fráfærulömb rekin inn í Lambhagann. Svo var byggt fyrir hilluna og lömbin látin afmæðast í sjálfheldu. Lambhilla er tæp á einum stað, en ég áræddi að fara hana. Í Lambhaganum var skuggalegt, þó vordagur væri, og einmanalegt var þar. Árniðurinn hvein í hömrunum, og Bjarnhillubrýr (74) bar við himin.... Bjarnhilla varð eins og bæjarstétt“ (88-89). Í skrá Ara Gíslasonar er Bjarnhilla (75) nefnd Bjarghilla og sagt hún sé í berginu ofan við Lambhagann. Lambhagi skiptist í Fremri- og Innri-Lambhaga. Nef skagar fram milli þeirra. Fremst í Innri-Lambhaga var lambabyrgi. Þar voru lömbin byrgð tvær til þrjár nætur. Milli Fossgils og Klifrárgils, innan við Fossgil, eru Lambatungur (76). Þar innaf, upp við jökul, er Fellsöxl (77). Skriðjökullinn, sem Klifandi fellur undan, nefnist Klifárjökull (78). Enn eru vantalin nokkur örnefni: „Í Klifrárgili fremst er í svo nefndu Heiðarhorni (79) mikill klettur og bekkur í. ... Undir þessum kletti gróf Klifandi sig austur á Fellsmýri“(E.G., 89). Landadý (80) er inn með Fellsfjalli, að austan. Kringla (81) er torfa í mörkum milli Holts og Fells, milli Selgils og Holtsgils, innan við Fýlaklett. Maríulækur á Felli: Þetta er sjálfsagt helginafn frá katólskum tíma. Í Varmahlíð undir Eyjafjöllum er smálækur fyrir austan bæinn, er Maríulækur heitir. Faðir minn, Tómas Þórðarson, f. 1886, alinn upp í Varmahlíð, segir, að í þennan læk hafi verið sótt vatn handa veiku fólki á bænum, þó annar silfurtær lækur rynni við bæjarvegginn. Þetta mun ég ekki hafa skráð í örnefnalýsingu á sinni tíð. 1. 11. 1967, Þ.T. Stafrófsskrá örnefna Austurbrúnir 71
|
ÞETTA ER GAMLI VEFUR FELLSMERKUR Þessum hluta vefsins hefur ekki verið viðhaldið eftir mars 2023. Nýr vefur er hér: https://www.fellsmork.is/ LUMAR ÞÚ Á EFNI? Landnemar og aðrir sem luma á efni sem tengist Fellsmörk eru hvattir til að senda það til félagsins svo það komist á vefinn. Sérstaklega er óskað eftir myndum í hóflegu magni sem m.a. sýna hvernig ræktunarstarfið gengur. Sendist til umsjónarmanns vefsins á netfangið eragnarsig@gmail.com.
|