Um Fellsmörk
Fellsmörk er eitt af skógræktarverkefnum Skógræktarfélags Reykjavíkur og felst í því að félagsmenn tóku að sér spildur til ræktunar á svæði sem Skógræktarfélagið hafði til afnota, í Mýrdal á móts við Pétursey. Það voru jarðirnar Keldudalur, Álftagróf og Fell.
Þeir félagsmenn sem tóku þátt í verkefninu, hafa séð um ræktun sinna skika, staðið straum af kostnaði í gegnum árgjöld til Skógræktarfélagsins en í staðin fengið heimild til að koma sér upp sumarbústað á sínum skika.
Verkefnið fór af stað um 1990 og hefur staðið síðan þá.
Félagið
Félagið er hagsmunafélag landnema á Fellsmörk og er tilgangur þess að gæta hagsmuna landnema i málum er snerta lönd þeirra og leigurétt og koma sameiginlega fram fyrir þeirra hönd.
Kennitala félagsins er: 600598-3099.
Stjórn félagsins
Gert er ráð fyrir að hver braut tilnefni einn fulltrúa úr sínum röðum til að sitja í stjórninni en alls sitja sjö aðilar í stjórninni. Formaður stjórnar er kosinn beinni kosningu á Aðalfundi. Stjórnin skipar ritara og gjaldkera. Núverandi stjórn var endurkjörin á aðalfundi 7. maí 2024.
- Einar Kristjánsson / Gilbraut
- Einar Ragnar Sigurðsson / Hlíðarbraut / Formaður stjórnar
- Guðrún Ólafsdóttir / Keldudalur / Gjaldkeri
- Hallur Björgvinsson / Heiðarbraut fyrir hönd Dalbrautar
- Jóhanna Bergrúnar- og Ólafsdóttir / Heiðarbraut / Ritari
- Tryggvi Þórðarson / Krókur
- Valdimar Reynisson / Hólsbraut
Félagsaðild og félagsgjald
Félagið er öllum opið sem hafa áhuga á starfseminni í Fellsmörk og hafa aðilar sem eru ekki með spildu til ræktunar frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur verið skráðir sem hollvinir félagsins. Að fá spildu til ræktunar er því ekki skilyrði en það er í gegnum Skógræktarfélag Reykjavíkur. Spildum verður væntanlega ekki úthlutað frekar fyrr en deiliskipulag svæðisins hefur verið klárað formlega.
Árgjald fyrir þátttöku í Félagi Landnema á Fellsmörk er ákveðið á aðalfundi félagsins og er 3.000 krónur árið 2024-2025. Innheimt er eitt félagsgjald fyrir hverja spildu eða aðildarfjölskyldu að Fellsmörk.
Starfsemi Félags landnema á Fellsmörk
Félagið annast hagsmuni Fellsmerkur og félagsmanna sem eru flestir landnemar á Fellsmörk eða tengdir Fellsmörk á annan hátt. Í samningum sem landnemar eru með við Skógræktarfélag Reykjavíkur er raunar gert ráð fyrir því að landnemar hafi félag sem geti komið fram fyrir þeirra hönd.
Fyrir utan almenna hagsmunagæslu þá hefur félagið eða nefnd innan þess séð um að skipuleggja árlegan gróðursetningardag þegar gróðursett er í sameiginleg svæði innan Fellsmerkur.