Fellsmörk er nefnd eftir fellunum sem þar eru: Fellsfjalli og bænum Felli undir Fellsfjalli. Það er því ekki úr vegi að skoða uppgönguleiðir á Fellsfjall þar sem m.a. er gengið um bæjarstæði Gamla-Fells.
Upphaf göngunnar er á varnargarði Klifandi rétt fyrir innan þar sem ruslagámur Fellsmerkur hefur verið. Gengið er nokkurn veginn beint upp frá varnargarðinum og það mótar fyrir göngustíg þarna í grasinu hvar gengið er.
Nokkuð fljótlega er komið að gömlum kofarústum og eru þar greinilegar rústir af tveimur kofum sem voru líklegast notaðir sem hrútakofar frá Gamla-Felli fram undir lok 19. aldar.
Nú er sveigt aðeins til vinstri inn með fjallinu vestanverðu því suðurendi þess er allur mjög brattur. Þarna opnast fljótt skemmtilegt útsýni yfir allan vesturhluta Fellsmerkur og inn í Botna fyrir innan Gilbraut Fellsmerkur og svo upp á Fellsheiðina sjálfa þegar ofar er komið. Pétursey blasir við í Suðri.
Þegar upp á fjallið er komið er farið til austurs og svo í suður á hæsta punkt og erum við þá líklega nokkurn veginn beint yfir Bæjarhausnum syðst í Fellsfjalli. Hér er komin útsýni til allra átta og einnig hægt að sjá nokkurn veginn beint niður á núverandi bæjarstæði Fells sem er við suðaustur enda Fellsfjalls. Lengra í austur sér til Dyrhólaeyjar, þó gatið sjáist ekki beinlínis. Meðal annarra fjalla í þá átt mánefna Höttu og auðvitað Búrfellið sem er nær. Hér sést einnig yfir Holt og yfir á austurhluta Fellsmerkur.
Lengra í burtu í norðurátt er Mýrdalsjökull og svo Eyjafjallajökull í vesturátt.
Núna væri einfaldast að fara sömu leið til baka og það er auðvitað hægt en þar sem hér er verið að lýsa hringleið um fjallið þá höldum við áfram norður eftir fjallinu. Þá opnast þar skemmtilegt útsýni inn til Holtsár og Holtsárgljúfurs. Gilin tvö: Þurragil nær og Selgil fjær blasa einnig við.
Gengið er niður nyrst á Fellinu þar sem heitir Fjallsendi og stefnt svo í norðvestur yfir að Bæjarlæknum sem rennur þarna í nokkur kröppu gili. Víðast er erfitt að fara yfir gilið þarna fyrir ofan Botna og þarf að hitta á réttan stað til að komast klakklaust yfir. Gengið er niður með Bæjarlæk sem reyndar er oft þurr þarna uppi og fram á brúnir fyrir ofan Botna. Hægt er að ganga fram á klettastall rétt vestan við Bæjarlækinn sem fellur þarna niður í mjög þröngu gili. Örnefin Skjólkambur og Hrafnabjörg voru fyrrum þekkt fyrir þessar klettabrúnir yfir Botnum.
Leiðin niður í Botna er síðan um geil í klettabrúnirnar sem er nokkuð greið leið en annars eru allir klettar þarna ókleifir móbergsklettar upp undir 100 metra háir. Myndbandið hér að neðan sýnir leiðina þar sem farið er upp leiðina sem við erum að fara niður.
Þegar niður geilina er komið fylgjum við Bæjarlæknum og þar sem að öllu jöfnu er ekki mikið vatn í honum getum við farið yfir hann fram og til baka að vild. Mikil þrenging er, þar sem Bæjarlækurinn rennur í gegnum þrönga skoru og heita þar Þrengsli. Á þeim stað er gott að fara upp á klettinn vestan megin og fara svo niður að læknum aftur þegar framhjá Þrengslunum er komið.
Rétt áður en komið er á algjöran flata er hægt að sjá lítinn manngerðan poll sem gegndi hlutverki miðlunarlóns fyrir litla rafstöð sem er rétt austan við hvar gangan hófst. Hér er einnig hægt að skoða rústir Gamla-Fells þegar göngunni lýkur.
Yfirlit yfir gönguna:
– Göngulengd: 7 km
– Hækkun: 400 m
– Áætlaður tími: 3-4 klst.
– Hæð fjallsins: 356 m