Lýsingin á þessari gönguleið er mest byggð á tveimur gönguferðum. Sú fyrri var farin seinni hluta apríl 2022 upp Lynghöfða, fyrir Fossgil og svo upp með Klifandi nær alla leið að Klifurárjökli. Sú seinni var farin um miðjan maí 2024 inn Klifurárgil og svo þaðan upp í Lambatungur og til baka fyrir Fossgil og niður Lynghöfðann.
Gangan eins og henni er lýst hér, hefst við efstu spilduna í Heiðarbraut og er gengið fyrst austur fyrir spilduna og svo upp með henni. Sveigt er þaðan í vesturátt niður í Klifurárgil.
Eftir því hvað mikið er í ánni og hvar farvegur hennar er, getur þurft að vaða kvísl úr henni sem liggur með bakkanum að austanverðu en oft er hægt að stikla það á steinum þó alls ekki alltaf. Hér getur því verið talsvert betra að hafa vaðskó meðferðis.
Veita má hér eftirtekt hvar birkihríslur vaxa á gróðurtorfu á einum stað hvar enginn kemst nema fuglinn fljúgandi. Þetta afmarkaða birkikjarr er líklegast hluti af því birkikjarri sem landið var þakið við landnám en það er óhugsandi að þessum plötum hafi verið plantað þarna, heldur eru þær sjálfsánar en hafa fengið að vaxa þarna í friði án ágángs sauðfjár í gegnum aldirnar.
Fljótlega er komið að Fossgili en Fossgilsáin er yfirleitt ekki mikill farartálmi og ætti yfirleitt frekar að flokkast sem lækur en á. Í venjulegri tíð eru margir staðir í boði til að stikla lækinn eða vaða ef einhver hefur ekki hug á að stikla hann.
Hér er sjálfsagt að ganga aðeins inn Fossgilið sem er mög fallegt og þokkalega greiðfært neðst. Eftir um hálfan km er komið að talsverðu stórgrýtishruni sem er erfitt yfirferðar og þá líklegast ágætt að snúa við enda er ekki nokkur leið að komast upp úr Fossgilinu nema fyrir fuglinn fljúgandi.
Eftir að hafa gengið þennan spöl inn Fossgil þá er öllum ljóst að það er mjög ógreiðfært og getur þá hugurinn hvarflað til Árna smala sem ætlaði sér að reka fé inn Fossgil og uppúr því. Fjárrekstur inn gilið er varla skynsamlegur og líklega ómögulegur. Að komast upp úr gilinu er hins vegar ekki nokkur leið þar sem þar er um í það minnsta tuga metra háa þverhnípta kletta að fara.
Þegar komið er til baka niður í mynni Fossgils má virða fyrir sér steinboga sem þar er, áður en gengið er upp í aflíðandi slakka sem er á milli Klifurárgils og fjallsbrúnar. Örnefni eru hér talsvert mikið á reiki en hugsanlega hefur þessi slakki verið kallaður Lambhilla eða Lambhagi hér áður fyrr. Ef gripið er niður í örnefnalýsingu á vef Örnefnastofnunar þá er þar lýsing:
Eystra gilið heitir Fossgil … þegar fyrir hornið kemur, opnast Fossgil og heitir þar Lambhagi. Þrengist þá gilið. Hilla þessi [fjárgatan] er nefnd Lambhilla og þar voru fráfærulömb rekin inn í Lambhagann. Svo var byggt fyrir hilluna og lömbin látin afmæðast í sjálfheldu. Lambhilla er tæp á einum stað, en ég áræddi að fara hana. Í Lambhaganum var skuggalegt, þó vordagur væri, og einmanalegt var þar.
Ef miðað er við hvernig þessi slakki er gerður af náttúrunnar hendi að þá hefur sauðfé sem þar var komið verið lokað inni ef lokað var fyrir þar sem slakkinn liggur frá mynni Fossgils. Sumt í þessari lýsingu passar hins vegar ekki eins vel og þá t.d. að Lambhillan væri tæp á einhverjum stað, því það er hvergi að sjá.
Þarna eftir slakkanum rennur lítill lækur sem þornar upp á köflum en getur svo birst aftur, sem er raunar eitt af einkennum svæðisins að lækir renna undir farvegi sínum en birtast svo aftur. Á köflum er þarna gengið í talsverðum hliðarhalla en ef einhverjum skildi skrika fótur þá er ekki um hátt fall að ræða þar sem eðlilegast er að fylgja nokkurn veginn botni slakkans. Ef vel er horft blasir við Arnarklettur á vinstri hönd,
Gengið er um einn og hálfan kílómetra inn eftir slakkanum, þangað til komið er að afar stæðilegum kletti, sem reyndar ber meira á hinum megin, ef horft er upp eftir Klifurágili eða niður með því. Hér eru aftur örnefni ekki alveg ljós en telja má mjög líklegt að þessi afar áberandi klettur hafi eitthvert nafn. Ef aftur er skoðuð örnefnalýsing Örnefnastofnunar þá kemur þar fram:
Í Klifrárgili fremst er í svonefndu Heiðarhorni mikill klettur og bekkur í.
Það nafn passar vel við klettadranginn og má því gera ráð fyrir að hann heiti Heiðarhorn á meðan önnur nafngift kemur ekki fram.
Hér efst í slakanum undir klettadranginum opnast gott útsýni inn Klifurárgilið. Það er svo spurning hversu skynsamlegt það er að fara upp á Klettadranginn sjálfan og eflaust er gott útsýni ofan af honum Það er varla hættulaust að komast þar alveg upp en ókleifur er hornið þó varla fyrir fólk vant klettalifri. Nokkuð auðvelt ætti samt að vera að komast langleiðina þar upp.
Frá Klettadranginum, ef horft er upp brekkuna í austurátt og upp í Lambatungur, er eitt nokkuð áberandi skarð í klettana og þar er sæmilega greið leið alveg upp á brún. Leiðin er öll nokkuð brött og mjög brött efst en vel greiðfær. Á flestum stöðum er hins vegar um illkleifa kletta að fara til að komast þarna upp. Þá erum við komin í Lambatungur.
Héðan er greið leið yfir Lambatungur, að Fossgilinu og hægt að sjá fossana innst í gilinu. Frá vestari brún er líklega bara hægt að sjá efri fossinn en frá eystri brúninni blasa þeir báðir við.
Mörgum gæti þótt þetta vera orðið alveg nóg þarna á göngunni og þá er einfaldast að halda niður með Fossgilinu að austanverðu. Hins vegar fyrir þá göngugarpa sem vilja meira er hér upplagt að ganga áleiðis inn að Mýrdalsjökli og halda sig þá í námunda við Klifurárgil sem er eflaust mesta aðdráttaraflið hér.
Það má þó ekki gleyma að horfa í kringum sig og hér eru nokkuð greinilegir jökulgarðar sem gengið er í gegnum og eru taldir vera frá lokum litlu ísaldar í lok 19. aldar en þá náði ísaldarjökullinn nær hálfa leið niður í byggð.
Ofarlega við Klifurárgil er hægt að sjá ofan í það og erum við hér komin þar sem leifar af skriðjökli Klifurárgils eru að bráðna. Þess má hér geta að á þessu svæði hefur jökulhop síðustu áratugina verið talsvert mikið og út frá loftmyndum má áætla að jökullinn ofan gilinu hafi hopað um 1.5 km á innan við 20 árum eða um 100 m að meðaltali ár hvert.
Ef förinni er ekki heitið eitthvað annað er líklega ágætt að snúa við þarna og ganga þá aftur niður að Fossgili og er þá tækifæri að sjá báða fossana í gilinu þegar gengið er niður með því að austan verðu. Eftir að við kveðjum Fossgilið er haldið áleiðis niður á Lynghöfða. Hér erum við á milli Fossgils og gilsins sem Bæjarlækurinn sakleysislegi við Gamla-Fell myndar. Það þarf að hitta á rétta niðurgönguleið því hér er eingöngu ein fær leið niður fyrir ofan Heiðarbrautina. Gæta þarf þess að vera fyrir vestan Bæjarlækinn sem nær þarna upp á heiðina því neðar er hann kominn í illfært gil.
Gengið er fram á Höfðann og gæti ókunnugur haldið að allt væri komið í óefni og ekki hægt að komast niður en leiðin birtist að lokum. Hún er reyndar snarbrött og ekki laus við hættur en fljótlega er komið á meira aflíðandi land og gengið niður austur fyrir efsta landi Heiðarbrautar á sama stað og gangan hófst.
Yfirlit:
– Göngulengd: 18 km ef farið er alla leið upp að jökli
– Göngulengd: 11 km ef ekki er farið inn fyrir Fossgil