Það fréttist fyrr í vikunni að það er búið að leysa ruslamálið á einhvern hátt. Það eru komnar fjórar sorptunnur fyrir allt svæðið, þar sem gámurinn stóð áður og það er fyrirtækið Kubbur sem sér um sorphirðu á svæðinu. Þetta þýðir að það þarf að flokka rusl á Fellsmörk eins og annars staðar. Flokkunin er skv. nokkuð hefðbundnu skipulagi, sjá nánar í leiðbeiningum Kubbs):
- Lífrænt er fyrir lífrænan úrgang eins og matarafganga, kaffikorg, eggjaskurn o.s.frv.
Ath. að bein mega ekki fara í lífrænt sorp - Pappi er fyrir pappír, fernur og bylgjupappa
- Plast er fyrir plastflöskur plastumbúðir, plastpokar, plastfilmur og frauðplastumbúðir
- Almennt sorp er fyrir óendurvinnanlegt sorp.
Við þurfum að vanda okkur við flokkunina þannig að þetta allt verði til fyrirmyndar af okkar hálfu. Það sem fer í lífrænt þarf væntanlega að vera í hefðbundnum bréfpokum sem við öll ættum að hafa aðgang að, a.m.k. heima hjá okkur. Þessar tunnur eru auðvitað opnar fyrir alla sem leið eiga um en við sem tengjumst Fellsmörk verðum að leggja alla áherslu á að ganga vel um.
Það má væntanlega gera ráð fyrir að það gildi sama áætlun fyrir tunnurnar í Fellsmörk og annars staðar í Mýrdalshreppi sem í grófum dráttum segir að hver tunna sé tæmd á fjögurra vikna fresti.
Miðað við hvernig þetta er sett fram þá lítur ekki út fyrir að hægt sé að hafa nein áhrif á það hvenær tunnur eru tæmdar en það er væntanlega hægt að biðja um fleiri tunnur.
Ef tunna er full þá getum við ekki skilið ruslið eftir við tunnuna heldur verðum við að taka það með okkur í aðra förgun. Samkvæmt leiðbeiningum um fyrirkomulagið getum við átt von á því að yfirfull tunna verði ekki tæmd og það liggur því mikið undir að ganga vel um.
Nánar á vefsíðu Kubbs má finna upplýsingar um gámasvæði og annað slíkt. Þar er einnig sérstakur bæklingur fyrir sorphirðu í Mýrdalshreppi.