Það er gamall vegarslóði fyrir austan Lambá og raunar þá einnig fyrir austan Fellsmörk, sem er er skemmtilegur til hjólreiða á fjallahjólum. Slóðinn er í sjálfu sér nokkurn veginn jeppafær þannig að það þarf ekki nema miðlungi öflugt fjallahjól til að fara þar um.
Það má segja að leiðin hefjist fyrir neðan Hlíðarbraut og Krók og er fyrsta verkefnið að komast yfir Lambá. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að hægt sé að hjóla yfir ána og er góð hugmynd að hafa meðferðis vaðskó til að vaða Lambána með hjólin en svo má skilja vaðskóna eftir á öruggum stað austan árinnar og nota svo aftur á bakaleiðinni, því ekki þarf að fara yfir önnur vatnsföll á þessari leið.
Vegarslóðinn er í sjálfu sér ekki alveg tilgangslaus því eflaust hefur hann í gegnum tíðina verið notaður til að flytja fé og svo er hann núna einnig notaður til að vitja um jarðskjálftamæli sem er þarna rétt utan í Mýrdalsjökli til að fylgjast betur með eldstöðinni Kötlu.
Vegurinn endar þar sem komið er hátt upp í Grænufjöll og er þá raunar upplagt að ganga aðeins um svæðið og skoða það betur.
Leiðin er meira og minna öll upp á við og reynir talsvert á en erfiðið er þess virði þar sem bæði er mjög skemmtilegt útsýni víða á leiðinni og svo má gera ráð fyrir að niðurleiðin verði talsvert auðveldari þar sem hægt er að láta sig renna niður brekkurnar.
Á myndbandinu hér að neðan er verið að rúlla niður síðustu brekkuna, niður að Lambá.